Fibaro Home Center 3 – Dæmi upp stillingu hitastýringar

Í þessum pistli ætla ég að sýna dæmi um hvernig hægt er að stilla hitastýringar í Home Center 3 stjórntölvunni, með því að sýna dæmi úr raunverulegu kerfi, fyrst og fremst í formi skjámynda.

Ef maður skráir sig inn í vefkerfið og smellir á tannhjólið vinstra megin á vefsíðunni og eftir það á lið númer 9 í valmyndinni, Climate, sér maður yfirlitsmynd yfir hitastýringar sem skilgreindar hafa verið í kerfinu.

Þarna má sjá að ég er búinn að búa til nokkur Zone eða svæði, ég hef gert það þannig að hvert herbergi er eitt svæði. Þegar búið er til svæði í þessum hitastýringarhluta velur maður herbergi sem eru þá hluti af því svæði og eftir það hvaða hitagjafar innan herbergisins eru notaðir til að stýra hitanum, sem dæmi lítur svæðið fyrir bílskúrinn hjá mér svona út, þar er einn ofn sem sér um hitastýringuna.

Að sjálfsögðu má hafa stærri svæði með mörgum herbergjum en það þýðir að hitaplanið sem við skilgreinum fyrir það svæði gildir fyrir öll herbergin. Það er þá ekki hægt að taka eitt herbergi í svæðinu og hafa annan hita fyrir það herbergi en í öðrum herbergjum í sama svæði.

Á yfirlitsmyndinni efst í þessum pistli má sjá að efsta svæðið heitir Hjónaherbergi. Við sjáum á tímalínunni að þar er núna stillt að það eigi að vera 19,5 gráður. Í herberginu er einn ofn með snjallstýringu sem sér um að reyna að halda þeim hita.

Ef smellt er á > merkið sem er lengst til hægri á myndinni kemur yfirlit yfir hvern dag vikunnar, það er hægt að hafa mismunandi hitaplan fyrir hvern dag. Möguleiki er að hafa fjóra mismunandi hitastillingar fyrir hvern dag.

Þarna sjást númer ofan á grænu línunum, frá 1 til 4. Hvert númer er hægt að draga til á tímalínunni og breyta þannig á hvaða tímabili sú stilling gildir. Ef smellt er á > táknið fyrir einstakan dag er hægt að stilla hitastigið fyrir þann dag, myndin verður þá svona:

Eins og sjá má er hægt að breyta hitastiginu með því að smella á plús og mínus takkana. Einnig er hægt að ákveða að sama plan gildi fyrir aðra daga með því að haka í viðkomandi daga í línunni “Copy schedule for:”.

Ef maður vill seinna breyta hitastiginu tímabundið á ákveðnum tíma, til dæmis hækka hita í eitt skipti þegar maður kemur heim og er óvenjulega kalt, þá getur maður farið í ákveðinn ofnastilli eins og sýnt var í síðasta pistli og breytt hitanum í ákveðinn tíma. Eftir þann tíma dettur hitastillingin á þeim ofni aftur inn í það plan sem skilgreint var fyrir svæðið.