Í þessum pistli ætla ég að sýna dæmi um hvernig hægt er að stilla viðvaranir (Alarm) í Home Center 3 stjórntölvunni, með því að sýna dæmi úr raunverulegu kerfi.
Ef maður skráir sig inn í vefkerfið og smellir á tannhjólið vinstra megin á vefsíðunni og eftir það á lið númer 8 í valmyndinni, Alarm, sér maður yfirlitsmynd yfir viðvörunarstillingar sem skilgreindar hafa verið í kerfinu. Dæmi um slíka mynd er svona:
Þarna sjáum við að búið er að skilgreina ákveðin svæði (Zone) sem virka sem sjálfstæð svæði gagnvart viðvörunum, þ.e. ef ég myndi núna kveikja á viðvörunarkerfinu fyrir svæðið Bílskúr myndi bara vera tilkynnt ef verið er að reyna að brjótast inn á það svæði, hvað gerist á hinum svæðunum skiptir ekki máli gagnvart þeirri stillingu. Þannig er hægt að setja viðvörunarkerfið á fyrir ákveðin svæði hússins ef vilji er til þess. Ég ætla núna að eyða stillingu fyrir Bílskúrinn og búa til nýja til að fara í gegnum ferlið fyrir það.
Ég byrja á að smella á Add Zone takkann uppi í hægra horninu. Þá fæ ég yfirlit yfir alla skynjara sem geta tekið þátt í að vera hluti af viðvörunarkerfi, sjá myndina hér fyrir neðan.
Ég gef þessu svæði nafnið Bílskúr. Þarna haka ég í tvo hreyfiskynjara sem eru þar og skynjara sem segir til um hvort verið sé að opna hurð inn í bílskúrinn. Loks smelli ég á Save og þá birtist nýja svæðið í yfirlitsmyndinni.
Nú er ég búinn að búa til svæði og næst vil ég búa til einhverjar aðgerðir sem verða framkvæmdar ef einhver af snjallhlutunum sem ég valdi eru rofnir (gengið fyrir hreyfiskynjara eða hurð opnuð). Ég vel því flipann Alarm Scenes ofarlega í skjámyndinni og fæ upp mynd þar sem maður getur búið til sjálfvirkni við þessar aðstæður.
Eins og sjá má er bara ein skilgreining fyrir hjá mér, það er af því að ég hef sjálfur búið til sérstaka forritsbúta sem sjá um þetta í öðrum stað í kerfinu en það er dálítið sérhæfðara og ég fer núna bara yfir þessar stillingar sem eru tilbúnar í kerfinu, ætlaðar fyrir þetta.
Ég smelli núna á bláa takkann, “Add Alarm Scene”, og fæ upp mynd þar sem ég get sett heiti á þessa sjálfvirkni, ég set heitið bara sem “Bílskúr”, einnig er hægt að velja flokkun sjálfvirkninnar og hvaða tákn er sýnt fyrir hana.
Ég smelli eftir það á Save takkann. Þá fer ég inn á vefsíðu sem er í rauninni senu (scenes) hluti kerfisins, þar sem hægt er að búa til flæði með því að draga til blokkarhluta. Myndin sem við fáum upp er svona:
Vinstra megin á myndinni, við dökkbláu línuna eru sett skilyrði sem þurfa að vera til staða til að senan sé keyrð og hægra megin, þar sem stendur “Do the following” er hvað við viljum gera ef skilyrðin eru uppfyllt.
Ég breyti bláa kassanum svona:
Þetta segir að ef skynjararnir sem við völdum í bílskúrnum fara í stöðuna “breached”, sem má kannski þýða að þeir séu rofnir, þá gerum við aðgerðina sem við skilgreinum á eftir, þetta er Triggerinn, það sem ræsir aðgerðina. Það er hægt að hafa fleiri skilyrði, þá eru kassar frá hægri hluta skjásins dregin yfir í svæðið þar sem stendur “Drop block here”. Dæmi um skilyrðakassa sem hægt er að draga þangað er tímakassar, snjallhlutakassar eða veðurkassa. Þá er hægt að setja þannig fleiri skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að aðgerðin sé keyrð.
Ef við förum í hægri hluta skjásins, fyrir aðgerðina sem við ætlum að framkvæma (“Do the following”), þá ætla ég að setja af stað sírenu og senda mér skilaboð í símann þegar skilyrðin eru uppfyllt. Ég smelli því á Device lengst til hægri og dreg “Single” box yfir á “Drop block here” svæðið. Þá lítur myndin út svona:
Í felliboxinu þar sem stendur “Choose room” vel ég bílskúr, í “Choose device” felliboxinu vel ég “Sírena bílskúr”, en það vísar að sjálfsögðu í sírenu sem í bílskúrnum. En ég vil líka setja sírenu sem er inni í íbúðinni af stað, þannig að ég dreg nýjan Single kassa í “Do The Following” svæðið. Á sama hátt stilli ég að sírenan þar fari í gang. Núna lítur myndin því svona út:
Ég bæti við einum kassa til að senda mér skilaboð. Í valmyndinni til hægri smelli ég á “Notafication” og dreg kassa sem heitir “Push” yfir í “Drop block here” svæðið. Þar skilgreini ég tvo notendur sem eiga að fá skilaboð, notendurna admin og Snjallari, hægt er að haka við einn eða fleiri notendur kerfisins. Þeir fá skilaboðin “Aðvörun í bílskúr”. Þá lítur þetta svona út:
Ef við viljum prófa hvort þetta virki, hvort að sírenurnar fari af stað og að skilaboðin berist, þá er hægt að smella á bláa “play” takkann efst í myndinni. Ég get ekki sýnt hvernig sírenurnar fara af stað nema búa til myndband en svona líta skilaboðin út á símanum: