Ég ætla að fara hér í gegnum uppsetningu á Fibaro Home Center 3 stjórnstöðinni, oft skammstafað HC3. Þetta er sú stjórntalva sem ég er sjálfur með á heimilinu hjá mér. Eftir að hafa farið m.a. í gegnum uppsetningu á Home Assistant, þá er þetta töluvert einfaldara, þannig að þessi pistill er kannski meira um að sýna skjámyndir úr kerfinu þannig að fólk átti sig á því hvernig notendaviðmótið lítur út og hvaða möguleikar eru til staðar.
Fibaro fyrirtækið (www.fibaro.com) sem býr til stjórnstöðina er pólskt fyrirtæki, nokkuð stórt og hafa verið lengi á markaðnum. Þeir eru einna stærstir í heiminum í að framleiða snjallhluti, sem dæmi hreyfiskynjara, snjallrofa, hurðaskynjara og hafa þótt vera með góða og áreiðanlega vöru þar og eru einn vinsælasti framleiðandi heimsins í þeim flokkum. Þeir hafa fyrst og fremst einblínt á snjallhluti fyrir Z-wave staðalinn en eru einnig aðeins að framleiða snjallhluti fyrir Homekit frá Apple. Fibaro voru keyptir 2018 af fyrirtæki sem heitir Nice group.
Home Center 3 stjórnstöðin kom út nokkuð snemma á árinu 2020. Hún kom hugsanlega út of snemma og fyrsti hugbúnaðurinn sem hún var með var ekki alveg nógu langt kominn eða prófaður. Síðan eru komnar nokkar uppfærslur sem hafa bætt miklu við og ég er nokkuð sáttur með hana í dag. Það er þó ýmislegt sem vantar, það sem mér finnst mest vanta er app fyrir spjaldtölvur þar sem ég hef verið með spjaldtölvur á veggjum hjá mér til að stýra og hafa yfirlit yfir stýringar heimilisins. Gamla spjaldtölvuforritið þeirra fyrir HC2 virkar ekki fyrir HC3. Ég hef notað app sem heitir The Home Remote sem viðmót á spjaldtölvu hingað til (https://thehomeremote.com/) en lærdómskúrfan fyrir það forrit er það há að ég myndi segja að það sé bara fyrir þá sem hafa reynt forritun að nota. Nýjustu upplýsingar frá Fibaro (nóv 2020) eru hins vegar að nýtt spjaldtölvuapp sé komið í beta prófanir.
Annað sem fólk hefur verið að gagnrýna, sérstaklega á spjallborði Fibaro fyrir notendur kerfisins, er að stjórntölvan er með ýmsa eiginleika sem ekki hafa verið virkjaðir og hafa þeir legið undir gagnrýni um að auglýsa ákveðna eiginleika sem ekki eru virkir eins og er. Ætlunin er að virkja þá eiginleika með uppfærslum á stýrikerfinu. Í dag er í rauninni bara Z-wave samskiptastaðallinn virkur, sem dugar mér vel þar sem ég er með alla mína snjallhluti í Z-wave, enda áreiðanlegur staðall sem hefur marga kosti umfram Zigbee og að maður tali ekki um kosti umfram WiFi snjallhluti. Vélbúnaður HC3 tölvunnar styður hins vegar þessa samskiptamáta:
- Z-Wave (500): 868.0-868.6 MHz 869.7-870.0 MHz
- 433MHz (OOK, FSK, GFSK): 433.54-433.92 MHz
- 868 MHz (OOK, FSK, GFSK): 868.3-868.94 MHz
- ZigBee 2405-2480MHz
- Wi-Fi (802.11 b/g/n/a/ac) 2400-2483MHz 5150-5350MHz
- Bluetooth Low Energy 2402-2480MHz
En af þeim er einungis Z-wave virkt núna. Fibaro talar um að áætlað sé að virkja ZigBee á fyrri hluta ársins 2021. HC3 tölvan er með ýmis “plugin” sem gerir henni kleift að hafa samskipti við hluti engu að síður þó að þeir hlutir hafi ekki samskipti með Z-wave staðlinum, sem dæmi er hægt að tengjast Philips Hue stjórnstöð og sækja snjallhluti sem eru tengdir henni.
Appið sem tengist HC3 er frá Fibaro og er ókeypis.
Forritunarlega séð er HC3 mjög öflug og verður öflugri með hverri nýrri uppfærslu. Fyrir þá sem kunna eitthvað að forrita myndi ég telja að hún væri spennandi kostur.
Einn kostur í viðbót við Fibaro að hún virkar þó að hún sé einungis tengd staðarnetinu, hún er ekki háð skýjaþjónustu (en: cloud service). Það þýðir að ef netsamband dettur út eða er óstabílt virkar stjórntölvan enn og getur átt samskipti við snjallhluti sem er tengdir henni.
Uppsetningin
Þegar við fáum Fibaro tölvuna í hendurnar stingum við henni í samband við net, með netsnúru og kveikum á henni. Ef þið erum með router sem að sýnir ykkur á hvað ip-tölu hún ræsir sig upp á sláið þið inn þá iptölu í vefskoðarann (webbrowser) hjá ykkur. Ef ekki, þá þarf að niðurhala Fibaro Finder forritinu og nota það til að finna ip töluna. Hægt er að finna Fibaro Finder forritið fyrir Windows og MacOS á slóðinni https://www.fibaro.com/en/support/, neðst á síðunni . Þá setjið þið upp forritið og smellið á Refresh og koma þá upp þær Fibaro stjórntölvur sem eru á sama staðarneti. Dæmi um hvernig það lítur út:
Annað hvort veljið þið línuna sem stendur HC3 í og smellið á Connect og þá opnast vefskoðari með tengingu til stjórntölvunnar eða þið opnið vefskoðara sjálf og sláið inn ip töluna sem þið sjáið fyrir HC3 tölvuna. Þá fáið þá upp svona vefsíðu:
Þarna sjáið þið vinstra megin eru tölusettir liðir frá 1 til 16, í uppsetningarferlinu er farið í gegnum þá alla. Það er hægt að fara í alla þessa liði aftur eftir að hafa smellt sig í gegnum uppsetningarferlið, þannig að þið þurfið ekki að stilla upp herbergjum og tækjum eða gera neitt í flestum þessum liðum strax, ég myndi amk. mæla með því að fara bara í gegnum liðina og sjá hvað hver inniheldur og setja upp til dæmis herbergi og snjallhluti seinna, þ.e. ekki meðan verið er að fara í gegnum grunnuppsetninguna. Það er fyrst og fremst nettengingin og uppfærslur sem þurfa að vera í lagi í upphafi, þ.e. fyrsti og annar liðurinn í uppsetningunni. Við sjáum fyrst lið 1. Network, sem er hvernig við viljum tengjast staðarnetinu okkar.
Þarna er ég reyndar búinn að velja að hafa fasta ip tölu (static IP). Það er fleiri en ein ástæða fyrir því, ef notuð er DHCP stillingin sem er sjálfgefin, þá er ekki öruggt að þið verðið með sömu ip tölu á stjórntölvunni ef þið endurræsið routerinn og önnur ástæða er að ég átti Home Center 2 tölvu áður en ég setti upp þessa og á spjallborði sem Fibaro heldur úti fyrir notendur sína kom fram að uppfærslur á tölvunni áttu það til að ganga verr ef ekki var föst ip tala á henni. Ég mæli einnig með að hafa stjórntölvuna frekar tengda með netsnúru við staðarnetið frekar en að nota þráðlausa tengingu, þó að ég viti ekki til þess að nein vandræði séu tengd því að nota hana á þráðlausri tengingu, reynsla mín í tölvugeiranum er að almennt sé áhættuminna að nota snúru en þráðlaust. Hægt er að stilla að tengingin við stjórntölvuna sem gerð með https, þ.e. með dulkóðuðum samskiptum milli Windows tölvunnar ykkar og stjórntölvunnar, ég ætla að sleppa því núna, ég bæti kannski við pistilinn hvernig það er gert seinna, þannig að við skulum ekki breyta því núna og hafa hakið stillt á http. Ef hakað er í https þarf að setja upp skilríki á Windows tölvunni ykkar, það er aðeins flóknara mál en þetta er hægt að gera seinna, þ.e. haka í https og setja upp skilríkið.
Neðst í hægra horni er Next hnappur, hann er á öllum síðunum sem við förum í gegnum í uppsetningunni og það sem hann gerir í rauninni er að hlaupa í gegnum númeraða listann sem við sjáum vinstra megin, með númerunum 1 til 16. Þegar við smellum á Next förum við í næsta lið sem er Update.
Það er nokkuð ljóst að eitthvað update bíður ykkar, Fibaro gefur út nýjar útgáfur á 2-3 mánaða fresti. Þið smellir bara á að setja inn uppfærslur sem bíða og eftir það endurræsir stjórntölvan sig. Það getur tekið nokkrar mínútur, á meðan kemur svona skjámynd þannig að þið sjáið hvað er mikið eftir.
Þegar tölvan hefur endurræst sig smellið þið á Next í hægra horninu og farið á lið 3 sem er Connect Gateways. Þið gerið í rauninni heldur ekkert það, þetta er notað ef maður vill nota aðra stjórntölvu sem þessi getur samhæft sig við, þar sem þessi væri “Master” tölva.
Þið smellið því á Next takkann og farið þá í lið 4. sem er Rooms eða herbergi. Í upphafi er eitt herbergi “Default Room”, þarna getið þið bætt við fleiri herbergjum, s.s. Eldhús, Stofu o.s.frv. Það þarf ekki að búa til herbergi núna nema þið viljið, allar stillingar sem farið er í gegnum í þessu uppsetningarferli er hægt að fara í aftur.
Eftir að hafa sett inn herbergi eða ef þið hafið sleppt því að setja inn herbergi, þá smellið þið á Next hnappinn og farið þá á lið 5. Devices, sem er umsýsla með þau snjalltæki sem þið ætlið að stýra með stjórntölvunni, s.s. rofar, hurðaskynjarar, hreyfiskynjarar o.s.frv.
Þarna sjáum við að búið er að bæta við veðurupplýsingum frá norsku veðurstöðinni YR. Til að gera það smellið þið á bláa plúsinn, þar sem blár og rauður hnappar eru hlið við hlið ofarlega til hægri. Þá fáið þið upp svona glugga:
Ef þið smellið á Other Device er hægt að velja um ýmislegt til uppsetningar, sbr. þessa mynd sem þá kemur upp:
Ef á þessari mynd er smellt á Climate í upptalningunni ofarlega á síðunni, þá kemur upp svona mynd:
Þarna er smellt á yrWeather, þá sést svona mynd:
Þið smellið á Save. Þá fáið þið Yr Weather upp í skjámyndina, eins og sást í fyrstu myndinni fyrir lið 5 hér fyrir ofan. Þið þurfið ekki að stilla staðsetningu ykkar til að fá inn réttar veðurupplýsingar, það er gert í næsta vallið, 6. General. Þið smellið því á Next hnappinn neðst í hægra horninu og fáið upp þessa mynd:
Þarna eru ýmsar almennar upplýsingar eins og sjá má. Vinstra megin er heiti stjórntölvunnar, hve björt ljósin framan á stjórntölvunni eiga að vera o.s.frv. Hægra megin er hægt að stilla “aðal” skynjara fyrir heimilið, þetta er hugsað fyrir ef að verið er að sýna samþjappað yfirlit yfir heimilið þar sem maður vill ekki vera með mikla sundurliðun.
Ef við smelllum núna Next förum við í Location “Tab” liðinn, sem er við hliðina á Main liðnum sem við vorum í. Þar sjáum við landakort þar sem við getum stillt staðsetningu heimilis okkar og einnig sjáið þið að hægt er að stilla radíus umhverfis það, það er hægt að nota síðar til að búa til sjálfvirkni þannig að eitthvað gerist þegar við nálgumst heimilið, t.d. kveikja ljós í forstofu. Til að velja staðsetningu getið þið fært til kortið og smellt á húsið ykkar, eða skrifað inn heimilisfangið í Address línuna, til dæmis Fylkisvegur 6, Reykjavik, Iceland. Kortið færist þá til og sýnir það heimilisfang.
Þið geymið það sem þið stilltuð með því að smella á Save og smellið á Next og farið þá í Time & Units, þar er stillt á hvaða tímabelti þið eruð og hvernig mælieiningar eru notaðar við ýmsa hluti, sbr. neðangreinda mynd. Þið veljið auðvitað Time Zone sem Atlantic/Reykjavík
Þið stillið þetta og smellið á Next og farið þá í Variables vallið, þar gerið þið ekkert í bili:
Sama með næsta lið sem er Events, þar þarf ekkert að gera núna:
Þið smellið á Next og við förum núna í lið 7. Access, þ.e. aðgangsstýringar.
Þarna sjáum við að það er til admin aðgangur, það er aðgangurinn sem við erum inni á. Það sem við myndum gjarnan vilja gera núna eða fljótlega eftir uppsetningu er að búa til svokallað Fibaro ID, eins og sést á bláa takkanum “Connect to Fibaro ID”. Fibaro ID er auðkenni sem þið notið til að skrá ykkur inn í kerfið frá Fibaro appinu eða ef þið viljið tengjast stjórntölvunni þó að þið séu utan staðarnetsins heima hjá ykkur. Ef þið viljið ekki geta tengst stjórntölvunni utan staðarnetsins, þ.e. frá síma eða utan úr bæ skuluð þið ekki búa til Fibaro ID, það er ekki skylda. Ef þið búið hins vegar til Fibaro ID, sem er í rauninni bara netfangið ykkar (email-ið ykkar) og lykilorð. Þá getið þið seinna farið inn á home.fibaro.com og skráð ykkur inn með þeim auðkennum og komist þannig inn á vef stjórntölvunnar og séð vefinn eins og þið væruð heima hjá ykkur, kveikt ljós o.s.frv. Ákveðnar aðgerðir er þó aðeins hægt að gera ef maður er tengdur á staðarnetið heima hjá ykkur, í öryggisskyni. Ef smellt er á > (stærra en merkið) sem er aftast í línunni sem stendur admin í, á breytist myndin og þið sjáið meiri upplýsingar um notandann.
Þarna er um að gera að setja eitthvað mjög gott lykilorð fyrir admin aðganginn, þ.e. local password. Pin númerið sem sést hægra megin er númer sem þið getið sett og er þá notað til að taka kerfið úr viðvörunarstöðu, þ.e. slökkva á viðvörunarkerfinu sem hægt er að skilgreina í kerfinu. Ef þið smellið loks á Next farið þið á næsta flipa, Installer Access. Þarna gerið þið í rauninni ekkert, þetta er notað ef þið þurfið aðstoð með kerfið síðar, þá getur Fibaro eða vottaður aðili frá þeim tengst kerfinu hjá ykkur og skoðað eða lagað. Þetta er notað ef vandamál koma upp, þá getið þið haft samband við “Helpdeskið” hjá Fibaro og þeir geta tengst kerfinu ykkar.
Ef þið smellir á Next farið þið í flipann Remote Access.
Þarna hef ég hakað við Remote Access, þ.e. ég er þá að leyfa það að appið geti tengst kerfinu og að hægt sé að tengjast því frá home.fibaro.com slóðinni.
Við smellum á Next og förum þá á lið 8. Alarm. Þar er hægt að búa til svæði sem við viljum hafa sem sameiginlegt öryggissvæði sem hægt er að fylgjast með. Sem dæmi væri hægt að búa til svæði sem heitir íbúð og annað svæði sem bílskúr. Eftir það er hægt að týna inn á svæðin skynjara sem við viljum nota sem öryggisskynjara þannig að við getum fylgst með því hvort til dæmis sé verið að brjótast inn. Sem dæmi um slíka skynjara eru hreyfiskynjarar eða hurðaskynjarar sem skynja hvort að hurð sé opnuð. Með því að hafa slíka svæðaskiptinu er til dæmis hægt að setja að öryggiseftirlit sé í gangi í bílskúrnum (að svæðið sé “armed”) en ekki í íbúðinni á sama tíma. Ef við geymum að skilgreina nokkuð þarna og smellum á Next förum við í flipann Alarm Scenes.
Þar getum við búið til sjálfvirkni, látið kerfið gera eitthvað ef skynjari/ar fara í gang, til dæmis ef gengið er fyrir hreyfiskynjara eða hurð opnuð. Sem dæmi um hvað væri hægt að láta gera væri að senda skilaboð í síma, setja sírenu í gang eða blikka öllum ljósum.
Við smellum á Next og förum í næsta lið, 9. Climate.
Þarna er hægt að skilagreina svæði sem maður vill láta hafa sama hitastig. Ef maður er með snjallhitastýringu, til dæmis snjall-ofnloka á öllum ofnum, þá er hægt að búa til svæði sem heitir til dæmi Stofa og búa til hitastýringarplan fyrir það svæði. Þá er hægt að stilla til dæmis að lækka hitann á nóttunni, auka hann aftur um morguninn, lækka hann yfir daginn ef það er virkur dagur og loks hækka hann aftur á kvöldin, þar sem þá er fólk komið aftur heim.
Ef við smellum á Next förum við í næsta lið 10. Garden.
Þar er hægt að búa til einhverja tímaröð atburða, ég hef ekki prófað þennan lið enn en mér sýnist að maður geti t.d. stýrt vökvun á ákveðnum tíma og dögum ef maður er með snjallhlut sem getur stýrt slíku. Ef við smellum á Next förum við í næsta lið 11. Scenes.
Þarna er hægt að búa til sjálfvirkni, sem dæmi er hægt að búa til flæði sem segir að ef gengið er fram hjá hreyfiskynjara kvikni á einhverju ákveðnu ljósi eða ef kveikt er á einhverju ákveðnu ljósi sé kveikt á einhverju öðru ljósi um leið. Það er hægt að nota tvær aðferðir til að búa til sjálfvirkni, annars vegar að nota svokallaðar Block Scenes og hins vegar Lua Scenes.
Block Scenes eru búnar til þannig að það eru dregnir til kassar, fyrst kassi/ar sem eru notaðir sem triggerar, þ.e. setja af stað eitthvað ferli, til dæmis ef kveikt er á ljósi. Hins vegar eru dregnir til kassar sem segja til um hvað á að gerast ef triggerinn fer að stað, sem gæti verið í sama dæmi að kveikja þá annað ljós um leið.
Lua Scenes eru hins vegar sjálfvirkni sem búin er til með forritunarkóða sem maður getur sjálfur sett inn. Það er hægt að gera miklu meira og flóknari hluti með slíkum kóða heldur en í Block Scenes.
Ef við smellum á Next og förum í næsta lið, 12. Profiles.
Þarna er búið að skilgreina ákveðna prófíla eftir því sem hægt er að kalla stöðu heimilisins. Sjálfgefnir eru prófilarnir Home, Away, Vacation og Night. Ef við skoðum felliboxið sem er efst hægra megin á myndinni, þar sem stendur núna Home og það er lítið hús við hliðina á þeim texta, þá getur maður skipt um prófila með því að smella á þann texta:
Þessi liður númer 12. Profiles, segir til um hvað eigi að gerast eftir því hvaða prófíll er valinn, ef til dæmis er valinn prófíllinn Away er hægt að stilla þann prófíl þannig að þá eru öll ljós slökkt nema kannski forstofuljós. Þetta er ekki eins og öryggisstillingar eða hitastillingar, þetta er ekki til að breyta þeim eða hafa umsýslu með þeim, í þessum prófíl stillingum er bara hægt að ákveða hvað er gert fyrir snjallhluti sem virka sem rofar.
Ef við smellum á Next förum við í næsta lið 13. Voip.
Stjórnstöðin getur virkað sem þjónn fyrir tal yfir net. Ég ætla ekki að fara nánar í það þar sem það er óvíst að þið munið nota það mikið. Ég er sjálfur með dyrabjöllu sem tengist þarna í gegn, ef hringt er á dyrabjöllunni fæ ég símtal í símann hjá mér og get svarað þeim sem er við dyrabjölluna, óháð því hvar ég er.
Ef við smellum á Next förum við í næsta lið, 14. Backup.
Þarna er hægt að taka afrit af stjórnkerfinu, bæði á “ský” (en:cloud) hjá Fibaro eða afrit sem við geymum á tölvunni okkar. Ef kerfið er uppfært með nýrri uppfærslu frá Fibaro sér kerfið alltaf um að taka afrit að kerfinu áður en það er uppfært, eða það er sjálfkrafa valið að það sé gert þó að hægt sé að haka það út og sleppa því. Ég myndi ráðleggja að taka alltaf afrit fyrir uppfærslur, eins og kerfið stingur sjálfkrafa upp á. Ég set yfirleitt upp allar beta útgáfur af stjórnkerfinu, beta útgáfa er eins konar síðasta útgáfa áður en fullgerða útgáfan er gefin út og getur því innihaldið galla. Ég hef lent nokkrum sinnum í því að kerfið hafi verið óstabílt eftir slíka útgáfu og þurft að nota síðasta afrit áður en beta útgáfan var sett upp, það hefur alltaf gengið mjög vel að fara í eldri útgáfu. Ef valið er að gera Local Backup, þá er afritið geymt á stjórntölvunni sjálfri. Einnig er hægt að taka slík afrit og geyma þau á PC tölvunni sinni.
Ef smellt er á Next er farið í næsta lið, 15. Diagnostics.
Þar sjást upplýsingar um hvernig gengur á stjórntölvunni sjálfri. Fyrsti flipinn sýnir álag á örgjörva stjórntölvunnar, það er fjögurra kjarna örgjörvi í henni. Næsti flipi sýnir minnisnotkun stjórntölvunnar:
Næsti flipi sýnir hvernig pláss er nýtt á hörðum diski stjórntölvunnar:
Og síðast flipinn sýnir stöðu á Z-wave netinu okkar.
Ef við smellum nú á Next förum við í síðasta liðinn, 16. Z-wave.
Þarna er Z-wave netið stillt. Þið ættuð ekki að breyta neinu þarna nema þið vitið hvað þið eruð að gera.
Þá er grunnuppsetningu lokið.
Í næsta pistli sem kemur mjög fljótlega ætla ég að sýna dæmi um hvernig ýmsir hlutar kerfisins eru stilltir hjá mér. Þá er hægt að sjá hvernig það kemur út að stilla inn öryggissvæði, hitasvæði o.s.frv. Ég er með á annað hundrað snjallhluta tengda kerfinu þannig að það er hægt að sýna ýmislegt.