Uppsetning á Home Assistant. Hluti 9. Tilkynningar í síma.

Í síðasta pistli tengdum við símann við kerfið. Næst ætlum við að láta kerfið senda tilkynningar í símann hjá okkur. Þannig að ég geri ráð fyrir að þið séuð núna með síma skráðan inni í kerfinu hjá ykkur.

Það fyrsta sem við gerum er að prófa hvort það virki að senda tilkynningu í símann. Við förum í vefviðmót kerfisins og smellum þar á Developers Tools í valmyndinni til vinstri, í valmyndinni sem kemur upp efst veljum við Services, þá eigum við að sjá skjámynd í líkingu við þessa:

Í felliboxinu þar sem stendur Service veljum við línu þar sem stendur í byrjun línunnar „notify.mobile_app_xxxx“ þar sem xxxx er nafnið á símanum ykkar. Í Service Data skrifið þið: message: test . Það á bara að vera eitt bil (space) á milli : merkisins og test. Sjá myndina hér fyrir neðan:

Ef smellt er á Call Service eiga að koma upp skilaboð í símann ykkar:

Ef þetta virkar skulum við prófa að búa til tvö tilvik þar sem við fáum skilaboð í símann. Hið fyrra er að fá skilaboð í símann þegar við förum frá eða nálgumst heimili okkar, í sjálfu sér ekki mikið gagn í því en hægt að nota það sem grunn í að gera einhverja aðgerð þegar nálgumst heimilið, s.s. að kveikja forstofuljós. Hið seinna er að fá skilaboð ef að hreyfiskynjari skynjar hreyfingu.

Að fá skilaboð þegar við nálgumst eða förum frá heimili okkar

Í síðasta pistli var farið yfir hvernig við skilgreinum staðsetningu þess hvar við eigum heima og ég geri hér ráð fyrir að það sé stillt og rétt hjá þér.

Við förum núna í Configuration í valmyndinni til vinstri og smellum síðan á Automations. Þá kemur upp ný mynd og við smellum á appelsínugula plúsinn neðst í hægra horninu:

Fyrir neðan svæðið þar sem stendur núna „What should this automation do?“ smellum við á „Skip“. Mér hefur fundist að það gerist stundum eitthvað skrítið ef maður skrifar eitthvað í svæðið „What should this Automation do?“. Þá sjáum við svona mynd:

Í svæðið þar sem stendur „New Automation“ skrifum við til dæmis „Tilkynning þegar ég kem heim“.

Við förum í Triggers hlutann og veljum í „Trigger type“ valliðinn „State“. Í „Entity“ veljið þið „device_tracker“ og þar sem seinni hlutinn er nafnið á símanum ykkar. Þið þurfið ekkert að velja í „Attribute“ en í „From“ svæðið skrifið þið „not_home“ og í „To“ svæðið skrifið þið „home“. Þá á myndin að líta svipað út og þessi:

Þið skrifið ekkert í „Conditions“ hlutann en „Actions“ hlutann stillið þið svona:

Og að lokum smellið þið á diskettutáknið neðst í hægra horni til að geyma það sem við vorum að búa til. Ef þið farið núna efst í myndina og smellir á örin sem vísar til vinsti farið þið á yfirlitsmynd þar sem þið sjáið sjálfvirknina sem þið voruð að búa til.

Ef þið smellir núna á „Execute“ ættuð þið að fá skilaboð í símann ykkar.

Ef að það virkar gæti næsta skref verið að fara 100-200 metra frá heimili ykkar og snúa við heim, þegar þið nálgist húsið ættuð þið að fá samsvarandi skilaboð í símann. Þið getið séð hvaða svæðið er stórt sem þið þurfið að fara út fyrir með því að smella á Configuration, eftir það á Zones og í myndinni sem þá kemur upp að smella á Home. Þá sjáið þið með bláum hring svæðið sem skilgreint er sem Home.

Að fá skilaboð þegar gengið er fyrir hreyfiskynjara, ásamt því að kveikja ljós.

Ég geri ráð fyrir í þessu dæmi að þið séuð búin að stilla inn hreyfiskynjara inn í heimastýringakerfið, eins og var til dæmis lýst í fyrri pistli. Einnig læt ég ljós kvikna, Hue ljós sem ég lýsti einnig í fyrri pistli hvernig hægt væri að setja upp.

Þið byrjið á sama hátt og í fyrra dæminu, smellir á Configuration, síðan á Automations, þá á appelsínugula plúsinn neðst í hægra horninu, á glugganum sem þá kemur upp smellið þið á Skip. Þessu er líst í dæminu hér fyrir ofan. Þá kemur upp ný mynd, þar sem stendur „New Automation“ skrifið þið heiti á þessari sjálfvirkni, til dæmis „Hreyfiskynjari í forstofu“.

Í „Triggers“ látið þið „Trigger type“ vera áfram „Device“ og veljið hreyfiskynjarann ykkar í Device felliboxinu.

Ég set ekkert inn í „Conditions“ hlutann en í „Actions“ hlutanum smelli ég á „Add action“ og byrja á að stilla inn Hue ljósið, svona:

Eftir það smelli ég aftur á „Add action“ og stilli nýju aðgerðina þar svona:

Loks smelli ég á diskettutáknið í hægra horninu til að geyma sjálfvirknina og smelli eftir það á örina til baka eins og lýst var í fyrra dæmi.

Ef þið smellið núna á Execute fyrir nýju hreyfiskynjarasjálfvirknina ætti ljósið að kvikna og þið fáið skilaboð í símann.

Í seinna dæminu getur ýmislegt farið úrskeiðis, þar er verið að tala við hreyfiskynjarann með Zigbee samskiptum, í gegnum Zigbee usb lykilinn. Ef þið fáið villu þegar þið reynið að geyma sjálfvirkniskilgreininguna, það væri þá hugsanlega villuskilaboð sem innihéldi orðið „integration“, þá borgar sig að smella á „Supervisor“ í vinstri valmyndinni, þ.e. geyma ekki það sem þið voruð að gera. Á myndinni sem þá kemur upp skuluð þið smella á „deCONZ“ myndina og sjá hvort að þið séuð að keyra nýjustu útgáfu af deConz hugbúnaðinum. Ef ekki skuluð þið smella á „Update“, sem ætti að vera ofarlega á myndinni, fyrir neðan þar sem stendur „Current version“ á neðangreindri mynd.

Ef þið eruð að keyra nýjustu útgáfuna eða hafið verið að uppfæra hana, skuluð þið næst smella á „Open Web UI“ í hægra horninu á ofangreindri mynd. Á myndinni sem þá kemur upp skuluð þið smella á bláa „Phoscon“ takkann.

Þá komið þið í yfirlitsmynd, þar skuluð þið smella á „hamborgara“ táknið ofarlega til vinstri, þá fáið þið upp valmynd þar sem þið getið m.a. valið „Sensors“, þar eigið þið að sjá Zigbee hreyfiskynjarann. Ef hann eða sá Zigbee hlutur sem þið eru að nota sést ekki þurfið þið að athuga það betur.

Eitt í viðbót, það er einungis hægt að senda 300 tilkynningar (push notifications) á dag.