Ef þú hefur sett upp Home Assistant á Raspberry Pi tölvu, þar sem kerfið er keyrt upp af SD minniskorti, þá er ekki spurningin hvort að minniskortið muni feila að lokum, heldur er hún frekar um hvenær það verður. Við þurfum því að vera vakandi yfir því að taka afrit af uppsetningunni okkar svo við þurfum ekki að byrja frá byrjun þegar að því kemur.
Við ætlum því að fara í gegnum það hvernig við geymum „snapshot“ af kerfinu hjá okkur, þ.e. afrit af kerfinu eins og það er á þeirri stundu.
Við opnum vefumsjónarkerfið fyrir Home Assistant og smellum á Supervisor í valmyndinni til vinstri og síðan á Snapshots í efri valmyndinni sem kemur þá upp.
Þarna skírið þið þessa afritun, ég set nafnið sem 11_09_2020, þ.e. eins og 11.09.2020 sem er dagurinn sem afritið er tekið. Þá hakið þið í Full snapshot og þið ákveðið hvort þið viljið hafa afritið þannig að það sé varið með lykilorðið, ef þið viljið það hakið þið í Password protection og veljið lykilorð. Eftir það smellið þið á Create. Hjá mér tekur svona 6-8 mínútur að búa til afritið, þið bíðið bara á meðan verið er að búa til afritið. Á meðan verið er að búa til afritið snýst hringur yfir Create textanum. Þegar snapshot-ið er tilbúið kemur það undir „Available snapshots“:
Það þarf hins vegar að gera meira, ef að SD minnikortið eyðileggst liggur snapshot-ið á minniskortinu þannig að það eyðileggst líka. Við smellum þess vegna á snapshot boxið og fáum þá upp svona glugga:
Þarna veljum við Download snapshot. Við það hleðst skráin með afritinu yfir á tölvuna okkar, þið sjáið það neðst í vinstra horni í vefskoðaranum:
Við geymum núna afritið á góðum stað á tölvunni okkar, þar sem við getum náð í það ef að SD kortið eyðileggst.
Að setja upp nýja uppsetningu með því að nota snapshot-ið, ef að SD minniskortið hefur eyðilagst, er aðeins flóknara. Við þurfum þá í rauninni að setja upp Home Assistant forritið frá byrjun aftur á nýtt kort, ræsa það upp og þá fara aftur í gegnum að stofna notanda. Að því loknu þurfum við að flytja gamla afritið yfir á nýja SD kortið. Það er þá yfirleitt gert með því að setja upp svokallaða Samba þjónustu á nýju uppsetningunni en sú þjónusta leyfir okkur að færa skrár yfir á SD kortið frá tölvunni okkar. Þá getur við afritað gamla snapshot-ið yfir á nýja kortið, í “backup” möppu/folder þar. Eftir að við höfum afritað snapshot-ið yfir í backup möppuna þar förum við í Snapshot valmyndina í nýju Home Assistant uppsetningunni okkar, smellum á Refresh táknið sem er efst í hægra horninu á vefsíðunni, þá mun gamla snapshot-ið okkar birtast þar í snapshot listanum. Þá getum við smellt á það og valið “Restore selected”, við það mun það keyrast inn og yfir okkar nýju uppsetningu og kerfið vera eins og það var þegar gamla snapshot-ið var tekið.
Önnur leið til að taka afrit
Eins og þið sjáið er nokkuð mál að setja aftur upp kerfið með því að nota eldra snapshot. Ég hef því sjálfur tekið afrit með því að afrita SD kortið sjálft reglulega. Það þýðir að maður þarf að fara í Supervisor og smella eftir það á System valliðinn og velja Shutdown. Taka SD kortið síðan úr Raspberry Pi tölvunni og setja það í hulstur sem er sérstaklega gert til að setja litlu SD kortin í, hulstrinu er oft hægt er að stinga beint inn í PC tölvuna sína. Margar fartölvur er með rauf fyrir slíkt hulstur en einnig er hægt að kaupa USB tengikvíar sem hægt er að stinga SD kortum inn í (dæmi: https://kisildalur.is/category/37/products/1434). SD kortið kemur núna fram eins og nýr harður diskur í skráarkerfinu í tölvunni, með nýjum drifbókstaf.
Næst hleður maður niður forritinu Win32 Disk imager, sem má finna á https://sourceforge.net/projects/win32diskimager/. Það forrit leyfir manni að taka afrit af SD minnikortinu og geyma á tölvunni sinni, kallað að taka „image“ af kortinu. Sú skrá getur hins vegar orðið nokkuð stór, ef við erum með 32 Gb stórt kort mun afritunarskráin einnig verða 32 Gb. Á móti kemur að það er fljótlegt og einfalt að ná sér í nýtt SD kort ef gamla kortið eyðileggst og flytja þetta image yfir á nýja kortið, þá þarf bara að stinga því inn í Raspberry Pi tölvuna og ræsa upp og þá á allt að vera eins og var þegar afritið var tekið.
Ef maður er búinn að setja kortið sem við ætlum að taka afrit af í minnikortarauf í tölvunni sinni ef hún er til staðar eða SD korta tengikví, þá ræsir maður upp Win32 Disk Imager forritið.
Í “Device” velur maður hvaða drifbókstaf maður vill taka image af, með því að opna File explorerinn á tölvunni þinn sérðu á hvaða drifbókstaf kortið kemur inn á, oftast er það D ef ekkert annað drif er tengt tölvunni. Maður smellir síðan á möpputáknið undir “Image File” og velur einhvern góðan stað í skráarkerfinu hjá okkur, ég vel að setja það yfir í sér möppu undir Documents möppunni hjá mér:
Eftir það smellir maður á Read takkann, ef þið farið með músina yfir Read takkann sjáið þið að það kemur texti neðst í gluggann „Read data from Device to Image file“, þ.e. lesa gögn frá D drifinu yfir í image skrána. Afritunin fer þá í gang:
Þarna er áætlað að hún taki tæpar 10 mínútur, endaði í 7 mínútum. Við sjáum í skrárkerfinu í tölvunni að skráin er rúm 30 Gb.
Nú eigum við afrit sem á að vera nákvæmlega eins og SD minnikortið er núna. Til að afrita það til baka ef gamla SD kortið eyðileggst fáum við okkur því nýtt kort, nýja kortið þarf að vera jafnstórt eða stærra en gamla kortið.
Við setjum nýja kortið í PC tölvuna, ræsum upp Win32 Disk Imager forritið og veljum í “Device” þann drifbókstaf sem nýja kortið kemur inn á. Nema nú förum við í möpputáknið í Image File kassanum og veljum 11_09_2020.img skrána og smellum á Write takkann núna í stað Read áður, þ.e. við ætlum að skrifa .img skrána yfir á nýja minnikortið, sem er í D drifi.
Þá kemur upp aðvörun, við smellum á Yes. Athugaðu að það skrifast yfir allt sem var áður á nýja SD minniskortinu, hafi eitthvað verið á því áður.
Það er áætlað að það taki eitthvað lengri tíma en þegar við vorum að lesa af því, u.þ.b. 18 mínútur:
Nú tekur maður nýja kortið úr, setur það í Raspberry Pi tölvuna og stingur henni í samband, þá á allt að ræsa sig eins og þegar upphaflega afritið var tekið.