Flestir sem komnir eru aðeins áleiðis með að snjallvæða heimilið sitt vilja setja snjallrofa inn í rafmagnsdósirnar þar sem gamli ljósarofinn er tengdur. Það eru ákveðnir kostir við það umfram það að skipta einungis um perur, þ.e. setja upp snjallperur sem eru þá oftast Philips Hue perur. Ef maður er með snjallrofa virkar til dæmis gamli ljósarofinn áfram sem mörgum þykir kostur. Annar kostur er að snjallrofi mælir yfirleitt hvaða straumur fer í gegnum hann og því getur maður fengið yfirlit yfir orkunotkun. Oft er auðveldara að búa til ferli í stjórnkerfunum fyrir snjallstýringar fyrir slíka rofa heldur en perur, s.s. ef maður vill t.d. að ljós kvikni þegar ákveðið dimmt er eða ef gengið er framhjá hreyfiskynjara. Að lokum er bara hægt að tengjast Hue stjórnstöðinni ef maður er á sama neti og hún er, þannig að þú getur ekki verið í vinnunni og séð hver staðan er á ljósunum heima eða kveikt eða slökkt á þeim, en það er hins vegar hægt með flestum snjallrofum sem settir eru inn í rofadósir.
Nú hefur hins vegar færst í vöxt að fólk vilja hafa bæði snjallrofa og snjallperur. Dags daglega vill það geta kveikt á perunni, bara til að fá ljós, en við ákveðnar aðstæður vill það nota eiginleika snjallperunnar til að breyta til dæmis litatón perunnar eða minnka eða auka birtu perunnar. Snjallperunum er stýrt þannig að hægt er að slökkva og kveikja á þeim með símaappi eða fjarstýringu. Fyrir Philips Hue sem er með algengustu snjallperurnar er hægt að fá fjarstýringu sem hægt er að festa á vegg, þ.e. hún leggst ekki fyrir rafmagnsdósir eða rofa sem eru fyrir í herberginu. Útlit fjarstýringarinnar er hins vegar mjög ólíkt öllum hefðbundnu útliti á veggrofum. Hér má sjá hvernig Philips Hue fjarstýringin lítur út.
Ef hins vegar notuð eru bæði snjallrofi og snjallpera lendum við í vandræðum. Þá er ég að tala um snjallrofa sem er tengdur inn í rofadós í veggrofann þar, rofadósina þar sem hefðbundni slökkvarinn er. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig hægt er að koma slíkum rofa fyrir, það sést glitta í hann hægra megin fyrir miðju:
Ef við rjúfum straum til perunnar með veggrofanum virkar ekki Hue appið á hana þar sem rafeindastýringarnar sem eru í rauninni inni í snjallperunni fá ekki straum og eru því óvirkar. Til áréttingar, ef við erum til dæmis með Hue snjallperu og slökkvum á snjallrofanum sem er á veggnum, þá rofnar straumurinn til perunnar, ef við reynum að kveikja á perunni með Hue appinu, þá virkar það ekki þar sem peran er straumlaus. Við þurfum því að ganga að slökkvaranum á veggnum og kveikja á perunni þar (hleypa straumi á peruna) og nota síðan appið. Við getum einnig hugsað okkur þær aðstæður að við höfum slökkt á perunni með Hue appinu. Við göngum síðan að slökkvaranum á veggnum og ætlum að kveikja á perunni. Þegar við ýtum á hann erum við í rauninni að rjúfa strauminn að perunni, þannig að við erum að slökkva aftur á henni, nema núna með snjallrofanum. Ef við ýtum á hann aftur þannig að það fer straumur á peruna er ekki víst að það kvikni á henni þar sem snjallperan getur verið stillt þannig að hún man í hvaða stöðu hún var síðast og heldur henni, sem var að það átti að vera slökkt á henni.
Hvað er þá til ráða? Hér ætla ég að fara yfir tvær lausnir:
1. Að tengja framhjá rofavirkninni í rafmagnsdósinni og láta snjallrofann sjá um að kveikja og slökkva á perunni með því að gefa skipanir eða skrifa forritsbút sem sendir skilaboð til perunnar þegar smellt er á rofann. Tengingin væri þá svona:
Þarna sjáum við að á fasalínunni yfir á ljósið hefur verið tengt yfir þar sem rofinn var áður, í rauninni bara sett tengi milli fasavírsins og vírsins yfir að ljósinu. Snjallrofinn er tengdur við rofann sjálfann, þ.e. slökkvarann sem er á veggnum. Hann hefur hins vegar ekkert hlutverk lengur nema til að senda skipanir yfir í snjallrofann, hvort að hann sé í stöðunni að vera kveikt á eða slökkt á. Snjallrofinn sendir skipanir þráðlaust yfir í Hue peruna eftir því í hvaða stöðu rofinn er. Ókostur þessa er að þá eru bæði núll og fasavírinn alltaf með lifandi tengingu upp í loftadósina, þó að í flestum tilvikum ætti það ekki að koma að sök.
Hér er dæmi um hvernig forritsbúturinn getur litið út á HC2 (Fibaro Home Center 2 stjórntölva)
Til að kveikja á Hue ljósinu:
Þarna má sjá í línu 3 að rofi sem er með númerið 1261 í kerfinu setur þetta script af stað ef staða hans breytist, þ.e. þetta er svokallaður trigger. Í línu 12 er skilyrði sem segir að ef gildi hans er stærra en 0 eru línur 17-19 keyrðar. Gildi rofans er 0 ef það er slökkt á honum en 1 ef það er verið að kveikja með honum. Ef verið er að kveikja með rofanum segir lína 17 að við kveikjum á ljósi númer 1015, sem er Hue ljósið sem við viljum kveikja á. Í línu 18 og 19 er síðan aukalega sett hvaða birtu og litblæ við viljum hafa.
Til að slökkva á Hue ljósinu:
Svipað og í scriptinu fyrir ofan, þá hlustar þetta script á rofa númer 1261 og ef hann fer í stöðu að það er verið að slökkva á honum sendir hann skipun á Hue ljósið sem er númer 1015 um að slökkva á því.
Ókostur við þessa aðferð er að straumurinn til perunnar fer ekki lengur í gegnum snjallrofann þannig að ef snjallrofinn er með virkni til að mæla strauminn sem fer í gegnum hann, til að sýna orkunotkun, þá mun hann alltaf sýna orkunotkunina núll. Undir venjulegum kringumstæðum geta flestir snjallrofar sýnt orkunotkun, sem dæmi má sjá hérna hvernig snjallrofi sem er fyrir útiljós hjá mér sýnir þetta í Fibaro stjórnkerfinu hjá mér.
2. Að nota forritunareiginleika í stjórntölvunni til að eiga samskipti milli stjórntölvu heimastýringarkerfisins og stjórntölvu Hue ljósanna. Ekki allar stjórntölvur geta átt slík samskipti en ég ætla að sýna dæmi hvernig hægt er að gera þetta með Fibaro Home Center 2 stjórntölvunni. Ef við gerum ráð fyrir að við séum búnir að setja upp Hue peru í loftljós og við loftljósið er tengdur veggrofi, veggrofinn er einnig tengdur við snjallrofa á hefðbundinn máta, þ.e. að veggrofinn hleypir straumi eða rýfur strauminn þegar smellt er á hann. Þar sem veggrofinn er einnig tengdur við snjallrofa getur maður farið í viðmót heimastýringartölvunnar og kveikt og slökkt á honum einnig þar.
Í Fibaro stjórntölvunni getur maður sett upp tengingu við Hue stjórnstöð og séð þar allar Hue perur sem tengdar eru stjórnstöðinni, hvernig það er gert er efni í annan pistil. Sem dæmi fyrir þær útskýringar sem ég er að fara yfir á eftir, þá er ég með eitt box í yfirliti Fibaro stjórntölvunnar sem sýnir Hue peruna og annað box sem sýnir snjallrofann sem tengist veggrofanum sem stýrir straumi til Hue perunnar.
Ég bý núna til tvo forritsstubba til að samræma stöðu þessa tveggja, ef að kveikt er með veggrofanum fer straumur til perunnar og ég sendi um leið skilaboð til Hue perunnar um að kveikja á sér. Ef slökkt er á veggrofanum sendi ég skilaboð til Hue perunnar um að slökkva á sér. Á sama hátt þarf ég að hlusta á hvort að ýtt sé á Hue fjarstýringu eða Hue appið notað til að kveikja eða slökkva á perunni, þá þarf ég að senda samsvarandi skilaboð til snjallrofans í veggdósinni.
Í sjálfu sér myndi maður halda að það væri óþarfi að senda skilaboð til Hue perunnar um að slökkva á sér þegar veggrofinn er notaður til að slökkva á henni, þar sem straumurinn til hennar rofnar og því nokkuð ljóst að það slökknar á henni. En við viljum einnig hlusta á skilaboð frá Hue perunni, þannig að ef kveikt er á henni t.d. með Hue fjarstýringu, þá þurfum við að kveikja á veggrofanum til að hleypa straum á peruna aftur. Hue stjórnstöðin er hins vegar þannig uppbyggð að ef maður er að hlusta eftir skilaboðum frá henni um breytta stöðu á peru, þá sendir hún ekki skilaboð um breytta stöðu ef maður er að setja hlutinn í sömu stöðu og hann var í.
Hljómar flókið, en sem dæmi, ef það er kveikt á perunni í Hue appinu og maður rýfur strauminn til hennar með veggrofa, þá heldur stjórnstöðin henni áfram í kveiktri stöðu, Hue stjórnstöðin skilur ekki að straumurinn hafi rofnað. Ef maður er síðan að hlusta eftir hvort smellt sé á takka á Hue fjarstýringu til að kveikja á henni (til að geta sent skilaboð til veggrofans um að hleypa straumi á hana), þá fær maður ekki skilaboð frá Hue stjórnstöðinni þar sem við erum að senda skilaboð með fjarstýringunni um að kveikja á henni en Hue stjórnstöðin segir að það sé þegar kveikt á henni og lætur okkur því ekki vita um neina breytingu.
Fyrri forritsstubburinn, sem ég bý til í Fibaro stjórnstöðinni, hlustar á veggrofann, sem er með númer 1344 í tölvunni, Hue peran er með númer 1015 í tölvunni.
Í línu 3 er sagt að við viljum hlusta á breytingar sem verða á stöðu hlutar 1344, sem er snjallrofinn sem er tengdur við veggrofann. Í línu 12 athugum við hvort það er verið að slökkva á veggrofanum (value = 0) og í línu 17 sendum við þá líka skilaboð til Hue perunnar (númer 1015) um að slökkva á sér.
Ef hins vegar er verið að kveikja með veggrofanum, value = 1 í línu 21, þá sendum við skilaboð til Hue perunnar um að kveikja á sér, í línu 26.
Seinni forritsstubburinn hlustar á breytta stöðu á Hue perunni og sendir skilaboð í samræmi við það til snjallrofans í veggnum.
Þetta forrit hlustar á hlut númer 1015, Hue peruna. Ef að slökkt er á veggrofanum (athugað í línu 10), með appi eða fjarstýringu og verið er að kveikja á Hue perunni (athugað í línu 12), þá kveikjum við á veggrofanum og setjum jafnfram ákveðið birtu og litastig á peruna (línur 16-18). Ef hins vegar er kveikt á veggrofanum og verið er að slökkva á Hue perunni (línur 21 og 23) sendum við skipun um að slökkva á veggrofanum.
Með þessu móti er alltaf samræmd staða milli veggrofans og Hue perunnar og hægt er að nota veggrofann, Hue fjarstýringu eða Hue appið og Fibaro appið til að kveikja og slökkva á perunni.
Ef það þarf að tengja eða breyta tengingum í raflögninni skaltu fá fagmann í það.