Orðalisti

Ég mun bæta í orðalistann eftir því sem tilefni gefur til.

433 Mhz: Tíðni sem notuð er til að flytja með upplýsingar milli snjallhluta. Þetta er í rauninni vísun í  samskiptamáta sem sumir framleiðendur nota til að eiga samskipti milli snjallhluta. Þá er yfirleitt talað um að hluturinn styðji 433 Mhz. Snjallhlutir sem styðja þetta hafa ekki verið algengir á Íslandi nema þegar verið er að selja hálflokuð kerfi s.s. viðvörunarkerfi ásamt aukahlutum frá ákveðnum framleiðanda.

Alexa: Raddstýringarforrit frá Amazon fyrirtækinu. Það er til dæmis innbyggður stuðningur fyrir Alexa í Amazon Echo hátölurunum.

Amazon Echo: Raddstýrður hátalari frá Amazon.

Arduino: Vinsæl smátalva hjá þeim sem eru að hanna og búa til einfalda rafeindahluti, til dæmis til að búa til sérhæfðar rafmagnsstýringar. Notandinn þarf sjálfur að tengja aukahluti og forrita á móti Arduino tölvunni. Tölvan er í rauninni bara tölvurás á lítilli prentplötu, á prentplötunni eru nokkur tengi sem hægt er að forrita á móti.

Fibaro: Framleiðandi á stjórntölvu til að stýra snjallhlutum, auk þess sem þeir framleiða vinsæla vörulínu með hinum ýmsum snjallhlutum s.s. skynjurum og rofum.

Google Home: Getur vísað í tvennt. 1. Raddstýrður hátalari frá Google. Hann notar Google Assistant til að greina raddskipanir. 2. Appið Google Home, sem notað er til að stýra snjallhlutum.

Google Assistant: Forrit frá Google sem greinir raddskipanir. Hægt er að hafa samskipti við forritið eftir ólíkum leiðum, s.s. Google Home hátölurum og Google Home appinu.

Home assistant: Forrit sem er notað til að stýra snjallhlutum, sett upp á stjórntölvu. Vinsælt er að setja Home assistant upp á Raspberry Pi smátölvu. Forritið er “open source”, þ.e. hver sem er getur séð forritunarkóðann að baki þess og það er frítt að hala forritinu niður og nota. Flækjustig við að setja það upp getur verið hærra fyrir þá sem eru ekki mjög tölvuvanir í samanburði við að kaupa tilbúna stjórntölvu með uppsettu stjórnkerfi.

HomePod: Raddstýrður hátalari frá Apple.

Internet of things: Oft skammstafað IoT. Hefur verið þýtt á íslensku sem “Net hlutanna”. Er nokkurskonar samheiti yfir hluti sem eru tengdir við internetið, þá er samt yfirleitt ekki verið að tala um tölvur eða síma, heldur aðra hluti s.s. hluti sem hægt er að stýra eða fá upplýsingar frá gegnum internettengingu.

IFTTT: Stytting á “if this then that”. Þetta er í rauninni vefforrit og app sem geta tengt saman ólíka hluti eða þjónustur, þannig að þau geta sent skilaboð sín á milli eftir ákveðnum hætti. Sem dæmi gæti snjallhreyfiskynjari sent IFTTT skilaboð sem myndi hafa þá verkun að þú fengir tölvupóst ef einhver gengi fyrir framan hann. Þetta er hægt að nota fyrir hluti sem ekki tala sama samskiptastaðal en maður vill engu að síður búa til “logik” sem leyfir þeim að hafa samskipti.

IKEA Tradfri: Vörulína frá Ikea fyrir snjallhluti þeirra. Inniheldur m.a. stjórnstöð, perur og fjarstýringar.

Philips Hue: Philips er framleiðandi á ýmsum rafmagnsvörum. Philips Hue er vörulína þeirra fyrir snjallhluti, fyrst og fremst ljós og ljósaperur.

Raspbery Pi: Smátölva sem þó er nokkuð öflug. Vinsæl smátalva hjá þeim sem eru að hanna og búa til einfalda rafeindahluti, til dæmis til að búa til sérhæfðar rafmagnsstýringar eða heimastýringarlausnir. Notandinn þarf sjálfur að tengja aukahluti og forrita á móti tölvunni. Tölvan er í rauninni bara tölvurás á lítilli prentplötu, á prentplötunni eru nokkur tengi sem hægt er að forrita á móti. Notar yfirleitt afbrigði af Linux stýrikerfinu. Hægt er að tengja usb lyklaborð og skjá við hana, auk þess sem hún er með innbyggt Wifi, netkort og fjögur usb tengi.

Shelly: Framleiðandi á snjallhlutum. Snjallhlutir hjá þeim nota WiFi, þ.e. hefðbundið þráðlaust net til að eiga samskipti sín á milli.

Siri: Raddstýringarforrit frá Apple.

Sonos: Hátalaraframleiðandi sem framleiðir þráðlausa hátalara. Hátalarana er hægt að tengja við ýmsar heimastýringartölvur.

Z-Wave: Vinsæll samskiptastaðall fyrir þráðlausa snjallhluti.

Zigbee: Vinsæll samskiptastaðall fyrir þráðlausa snjallhluti.