Það kemur stundum upp sú spurning hjá þeim sem eru að setja upp snjallstýringar af hverju þarf núll vír í þá rafmagnsdós sem verið er að setja snjallrofa í. Þá er talað um að snjallrofinn þurfi 3-víra kerfi. Þegar talað er um tveggja víra kerfi í þessu samhengi er verið að tala um að það þurfi ekki núll vír.
Rofar sem eru tengdir áður en búið er að snjallvæða þá með því að setja snjallrofa í rafmagnsdósina eru yfirleitt tengdir svona:
Í mörgum rofadósum, þ.e. inni í dósarýminu þar sem smellurofinn sem notaður er til að kveikja og slökkva á ljósum er settur inn í, þá er ekki dreginn þessi núll vír niður í rofadósina. Það er að því að til að geta kveikt og slökkt á ljósinu þarf hann í rauninni ekki, heldur er bara dreginn “fasa” eða “live” (L) vír og annar vír með honum sem tengist við núll vír sem er uppi í dósinni í loftinu eins og myndin sýnir. Þetta er stundum kallað 2-víra kerfi.
Þegar verið er að setja upp snjallrofa sem settir eru inn í rafmagnsdós er yfirleitt tekið fram að stýringin þarf núll vír eða “neutral wire” (N). Ástæða þess er að stýringin þarf alltaf að vera með rafmagn á sér, inni í stýringunni er rafeindabúnaður sem þarf alltaf að vera í gangi, að senda upplýsingar frá stýringunni og að hlusta á hvort ný skilaboð séu að berast frá stjórnstöðinni um að gera einhverja aðgerð. Þegar búið er að bæta við snjallrofanum lítur tengingin svona út:
Þarna sjáum við að ef rofinn í snjallrofanum er opinn, þ.e. slökkt á ljósinu, þá rennur ekki straumur í gegnum snjallrofann og hann mun ekki geta virkað þar sem hann hefur ekki straum til að láta stýrihlutina í sér virka, s.s. þráðlaus samskipti og ekki hægt kveikja og slökkva á honum gegnum stjórntölvu. Því þarf að bæta við þriðja vírnum niður í rafmagnsdósina, til að koma vinnslustraum á snjallrofann. Þetta er oft kallað 3-víra kerfi.
Þá lítur tengimyndin svona út:
Núll vírinn er yfirleitt blár á litinn, var stundum hvítur í eldri húsum, meðan fasavírinn sem alltaf er með spennu getur af ýmsum litum, fer oft eftir því hvenær rafmagn var lagt í húsið. Oft er fasavírinn rauður, brúnn eða svartur, líklegast er að hann sé rauður í eldri húsum en brúnn í nýrri húsum.
Ef ekki er núll vír í dósinni er hægt að redda sér með því að setja snjalldimmer í dósina í staðinn fyrir rofa. Ef við setjum dimmer, þá vinnur hann þannig að hann er að minnka straum í gegnum peruna og því dofnar ljósið í henni þegar við dimmum niðri í henni með dimmernum. Hann þarf því ekki að rjúfa strauminn til perunnar til að slökkva á henni, heldur minnkar hann strauminn niður í nánast ekki neitt. Dimmerinn þarf hlutfallslega mjög lítinn straum miðað við ljósaperuna til að geta starfað. Þar sem hann virkar ekki sem rofi rofnar ekki sambandið við fasa strauminn (L) og hann fær núllið (N) gegnum peruna þannig að hann fær í rauninni nógan straum til að geta virkað. Þess vegna sjáum við oft ekki tengingu merkta L á snjalldimmerum. Ef hún er til staðar er yfirleitt tengt saman þá N og vírinn frá ljósperunni, sem dæmi væri á Fibaro dimmernum settur stuttur vír milli N og Sx tengjanna.
Ef það þarf að leggja nýja víra eða breyta raflögninni skaltu fá fagmann í það.