Uppsetning á Home Assistant. Hluti 2. Hassio ræst

Stingdu nú Raspberry tölvunni í samband. Þú þarft ekki að vera búinn að tengja skjá, lykilborð eða mús við hana. Gefðu henni 1-2 mínútur eftir að þú ert búinn að stinga henni í samband, opnaðu þá vefskoðara og sláðu inn slóðina http://homeassistant:8123/, ef hún gengur ekki, prófaðu þá homeassistant.local:8123

Það getur verið að það komi upp svona mynd fyrst:

Þá er Raspberry tölvan enn að ræsa sig, nær sambandi en neitar að láta tengjast við sig. Hún fer að lokum upp og sýnir þá þessa mynd:

Nú bíður maður þolinmóður, þar til skjámyndin breytist í þessa mynd:

Þarna setur þú nafnið þitt efst, ég er búinn að fylla það út í ofangreindri mynd. Hafðu lykilorðið flókið og ekki þannig að auðvelt sé að giska á það. Þú getur notað íslenska stafi í lykilorðinu. Smelltu að því loknu á “Create account”. Þá sérðu þessa síðu:

Þú getur fært bláa pinnann, sem táknar staðsetningu þína, til. Með því að smella á “Detect” er lausleg staðsetning þín fundin, þú getur þurft að draga til pinnann eftir það til að setja hann á nákvæma staðsetningu þína. Um leið og staðsetning þín var fundin er stillt á rétt tímasvæði og mælieiningar. “Elvevation” þýðir þarna hæð yfir sjávarmáli, þú getur sett inn eitthvað sem þú heldur að sé nálægt þeirri hæð þar sem þú býrð. Þú getur einnig sett inn nafn á heimilinu sem þú ætlar að fara að stýra, svo sem götu og húsnúmer eða eitthvað gælunafn. Þessum stillingum getur þú einnig breytt síðar.

Eftir það smellir þú á “Next”.

Þá kemur upp mynd þar sem sjást þeir hlutir/tæki sem Home Assistant forritið hefur fundið þegar. Í mínu tilfelli lítur þetta svona út, en það getur litið öðruvísi út hjá þér, það skiptir ekki máli á þessu stigi.

Þú smellir núna á “Finish”. Þá kemur upp aðalvalmynd kerfisins, sem lítur svona út:

Þá er grunnuppsetningu kerfisins lokið.