Uppsetning á Home Assistant. Hluti 1. Raspberry Pi gert klárt.

Það er hægt að setja upp Home Assistant á fleiri en einn hátt og á mismunandi vélbúnað og ofan á mismunandi stýrikerfi. Það sem ég ætla að fara yfir er að setja það upp á smátölvu sem er kölluð Rasberry Pi, útgáfu 4B.

Það sem þú þarft að hafa er:

  • Raspberry Pi, útgáfa 4B
  • Spennubreytir fyrir Raspberry Pi 4, hann þarf að vera með USB-C tengi
  • Gott er að kaupa kæliplötu fyrir Raspberry Pi tölvuna, ég mæli með því þar sem hún hitnar töluvert.
  • Minniskort, myndi mæla með amk. 32Gb korti.
  • Tölvu sem er með rauf fyrir minniskort. Ef þú átt ekki þannig þarftu að fá þér búnað við tölvuna sem getur lesið og skrifað á minniskortið. Í leiðbeiningunum á eftir tala ég um tölvu með Windows 10 stýrikerfinu uppsettu, en það gæti verið öðruvísi tölva með öðru stýrikerfi, s.s. Apple tölva.

Svona líta helstu hlutirnir út, spennubreytirinn er ekki með á myndinni. Efst sjást kæliplötur, önnur fer undir Raspberry Pi tölvuna og hin ofan á og þær eru síðan skrúfaðar fastar saman, Raspberry PI tölvan til vinstri á myndinni og minniskortið sem ég notaði til hægri.

Auðveldast er að ná út útgáfu af Home Assistant sem er kölluð hassio. Það er útgáfa þar sem búið er að stilla upp Home Assistant umhverfinu ofan á linux stýrikerfi sem Raspberry tölvan keyrir. Þá sækir maður tilbúna uppsetningu (“image”) sem maður skrifar á minniskortið og það er þannig gert tilbúið til að ræsa upp af því án frekari aðgerða. Eftir að það er búið að skrifa hassio útgáfuna á minniskortið er minniskortinu stungið í rauf á Raspberry Pi tölvunni og hún ræst upp af því.

Í þessum pistli set ég Home Assistant upp á Raspberry Pi smátölvu með minniskorti. Það getur verið ávísun á vandræði að nota svokölluð micro sd minniskort, þau eru ekki mjög áreiðanleg þar sem þau hafa bara ákveðinn fjölda skipta sem hægt er að skrifa á þau áður en þau byrja að feila. Ég ákvað samt að hafa þetta svona þangað til það er komin uppfærsla á Raspberry Pi 4 tölvuna sem leyfir að starta upp á minniskubbi (USB minniskubbi eða SSD diski), ég mun þá skrifa nýjar leiðbeiningar eða bæta við þessar sem eru þegar komnar.

Fyrst þarf að hlaða niður tilbúinni uppsetningu (image) fyrir Raspberry Pi 4, það er gert með því að fara á https://www.home-assistant.io/hassio/installation, smella á „Raspberry Pi 4 Model B 32 bit“, þá hleðst niður skrá eins og sjá má neðst til vinstri í eftirfarandi glugga. Ef þú ert á tölvu sem keyrir Windows stýrikerfið mun skráin geymast í „Download“ möppunni á tölvunni.

Til að skrifa þessa skrá á minniskortið þarftu forrit sem heitir balenaEtcher. Það má finna á þessari slóð: https://www.balena.io/etcher/. Þú velur að niðurhala forritinu með því að smella á “download” takkann sem er fyrir miðri síðunni. Þú ræsir upp skrána sem þú niðurhalaðir (skráin byrjar á “balenaEtcher-Setup” og setur þannig forritið upp. Að því loknu ræsir þú balenaEtcher forritið og átt þá að sjá svona skjámynd:

Þarna smellir þú á “Flash from file” og þá kemur upp gluggi þar sem þú getur valið skrá, þú velur hassos skrána sem þú varst að niðurhala áðan og smellir á “Open”:

Þá verður “Select target” takkinn í balenaEtcher forritinu blár. Þú stingur núna litla kortinu inn í raufina á stóra kortinu og stingur eftir það stóra kortinu í minniskortaraufina í PC tölvunni þinni.

Ef PC tölvan skynjar minniskortið fer blái liturinn af “Select target” takkanum, textinn breytist í nafnið á kortinu, í mínu tilfelli “SDHC Card” og blái liturinn fer á “Flash” textann til hægri.

Þú smellir núna á “Flash” takkann og tölvan byrjar að skrifa hassio á minnikortið:

Fyrst kemur textinn “Decompressing” á hægri helming gluggans, þá “Flashing” og “Validating” og loks “Finishing”. Þegar því er lokið breytist glugginn og það stendur efst í honum miðjun “Flash complete”. Þú getur þá slökkt á þessu forriti.

Nú þarftu að velja um hvort þú viljir hafa Raspberry tölvuna tengda neti með snúru eða þráðlaust (WiFi). Ef þú ætlar að tengja hana með snúru stingur þú bara netsnúru sem tengist inn á routerinn hjá þér inn í nettengið á Raspberry tölvunni og sleppir því að stilla hana fyrir þráðlaust net. Þá getur þú sleppt leiðbeiningunum hér fyrir neðan umhvernig á að tengjast þráðlausu neti, skoðað textann neðst í þessum pistli um að taka minniskortið úr tölvunni og setja yfir í Raspberry Pi tölvuna og eftir það hoppað yfir í næsta pistil, um það þegar Hassio er ræst.

Ef þú ætlar hins vegar að tengja hana við þráðlausa netið heima þarftu opna “File explorer”-inn á tölvunni þinni, þú sérð þá hassos minnikortið sem disk, sennilega D disk, diskurinn heitir “hassos-boot”:

Smelltu á það og búðu til nýja möppu sem heitir “CONFIG”. Tvísmelltu síðan á hana og búðu til aðra möppu undir henni sem heitir “network”, tvísmelltu á hana. Þá á þetta að líta svona út:

Opnaðu núna “notepad” textaforritið (fylgir með Windows stýrikerfinu) og búðu til skrá með eftirfarandi innihaldi:

[connection]
id=my-network
uuid=YOUR_UUID_NUMBER
type=802-11-wireless

[802-11-wireless]
mode=infrastructure
ssid=YOUR_WIFI_NAME
#Uncomment below if your SSID is not broadcasted
#hidden=true

[802-11-wireless-security]
auth-alg=open
key-mgmt=wpa-psk
psk=YOUR_WIFI_PASSWORD

[ipv4]
method=auto

[ipv6]
addr-gen-mode=stable-privacy
method=auto

Þú breytir engu í ofangreindu nema það sem er með stóru stöfunum, á þrem stöðum. Fyrir það efsta, þá ferðu á slóðina https://www.uuidgenerator.net/ og þar er búið til nýtt UUID númer fyrir þig. Þú smellir á „Copy“ fyrir aftan númerið sem var búið til efst á þeirri síðu og setur í staðinn fyrir stafina „YOUR_UUID_NUMBER”. Dæmi um hvernig sú lína lítur út þá er svona, en þetta númer verður eitthvað annað hjá þér, eftir því hvaða númer vefsíðan bjó til.

uuid=5e8fead0-4684-435b-970b-7296265a6ffa

Síðan setur nafnið á þráðlausa netingu hjá þér við ssid, í staðinn fyrir “YOUR_WIFI_PASSWORD” og lykilorðið á því í staðinn fyrir “YOUR_WIFI_PASSWORD”. Ekki nota gæsalappir þegar þú setur inn nafnið og lykilorðið.

Geymdu nú skrána og láttu hana heita my-network og láttu hana vera endingarlausa, þ.e. ekki með endinguna .txt. [útskýra betur].

Þú getur nú tekið kortið úr PC tölvunni. Ekki hafa Raspberry tölvuna í sambandi. Þú tekur litla kortið úr stóra korthulstrinu og setur það í minnikortaraufina á Raspberry tölvunni. Kortið snýr þannig að snerturnar á kortinu snúa að prentborðinu á Raspberry tölvunni (og þá snúa stafirnir á kortinu út á við, frá Raspberry tölvunni).