Almennt um Home Assistant heimastýringakerfið

Home Assistant (HA) er heimastýringarforrit. Með það uppsett getur þú notað það til að stýra snjallhlutum, s.s. Hue ljósaperum, hreyfiskynjurum, rafmagnsrofum og fleiri hlutum sem kunna að hafa samskipti við HA. HA er opinn hugbúnaður, það þýðir að hver sem er getur náð í kóðann af honum og hópur af sjálfboðaliðum og áhugamönnum eru að viðhalda og bæta við kóðann.

Gögnin sem HA geymir og vinnur úr eru ekki geymd í skýinu (cloud), margir telja það kost nú á tímum aukinna vitundar um persónuvernd.

Home Assistant er ekki fyrir hvern sem er, maður þarf að vera tæknisinnaður og jafnvel grúskari, þar sem maður þarf að gera mikið sjálfur til að fá kerfið til að virka. Jafnframt þarf maður að hafa tíma, þolinmæði og vilja til að prófa sig áfram og lesa sér til, til að fá allt til að virka. Ég var svolítið hissa þegar ég var fyrst að byrja að setja upp svona kerfi, yfir hvað það var til lítið af góðum leiðbeiningum til að setja upp kerfið, það varð kveikjan af því að ég fór að taka saman þetta efni sem sjá má í pistlum mínum.

Ef þú ert ekki grúskari og með mikinn áhuga á heimastýringum eða ekki með þolinmæði til að takast á við að allt virki ekki rétt frá byrjun væri kannski ráðlegra að skoða kerfi sem eru með tilbúnari lausnir. Þau eru dýrari en eru auðveldari að koma sér af stað með. Mér dettur þá helst í hug Fibaro heimastýringarkerfið, ég hef notað það mikið og er nokkuð sáttur með það. Það munu birtast pistlar um það á þessu vefsetri.

Í þeim pistlum sem ég hef skrifað, amk. núna í byrjun, setti ég Home Assistant upp á Raspberry Pi smátölvu með minniskorti. Það getur verið ávísun á vandræði, þessi svokölluð micro sd kort sem eru notuð eru ekki mjög áreiðanleg, þau hafa bara ákveðinn fjölda skipta sem hægt er að skrifa á þau áður en þau byrja að feila. Ég ákvað samt að hafa þetta svona þangað til það er komin uppfærsla á Raspberry Pi 4 tölvuna sem leyfir að starta upp á minniskubbi (USB minniskubbi eða SSD diski), ég mun þá skrifa nýjar leiðbeiningar eða bæta við þessar sem eru þegar komnar.