Philips hefur lagt mesta áherslu á ljós og ljósaperur í Hue línunni sinni. Einnig er eins og er hægt að fá fjarstýringar og hreyfiskynjara frá þeim. Þeir nota samskiptastaðalinn Zigbee við að tala frá Hue stjórnstöðinni til Hue snjallhlutanna sinna. Ein Hue stjórnstöð getur stjórnað um 50 snjallhlutum. Í nýrri útgáfum af Hue snjallhlutunum geta þeir einnig átt samskipti með Bluetooth samskiptum og þá án stjórnstöðvar, en það eru ákveðnar takmarkanir sem við fáum ef við notum Bluetooth í staðinn fyrir að vera með stjórnstöð. Eins og þetta er þegar þessi pistill er skrifaður, ef notað er Bluetooth er einungis hægt að stýra 10 snjallhlutum, s.s. 10 ljósaperum, aðeins hægt að hafa eitt herbergi skilgreint, ekki hægt að búa til sjálfvirkar stýriaðgerðir og ekki hægt að stýra ljósunum nema vera það nálægt þeim að Bluetooth þráðlausu samskiptin nái milli ljósanna og símans sem maður stýrir ljósunum með.
Eitt af því sem fólk kvartar mest yfir þegar það setur Hue perur í ljós sem eru þegar til staðar á heimilinu er hvernig veggrofar virkar eftir það. Þau ljós hafa ekki verið dimmanleg og það hefur verið notaður rofi á vegg til að kveikja og slökkva á þeim. Þegar Hue peran er sett í perustæðið í stað gömlu perunnar vill fólk geta notað app eða fjarstýringu sem hægt er að fá fyrir Hue ljósin til að kveikja og slökka á perunni, eða minnka eða auka birtuna með því að nota dimmerinn í fjarstýringunni.
Ef þú hins vegar slekkur á ljósinu með veggrofanum ertu að rjúfa strauminn til perunnar. Þá er sama hvað þú ýtir á takkana á fjarstýringunni eða reynir að breyta henni með appinu, það mun ekkert gerast þar sem enginn straumur er til perunnar. Því þarf veggrofinn alltaf að vera þannig að kveikt sé á perunni eða ljósinu, ef maður vill geta notað fjarstýringuna eða nota sjálfvirkar aðgerðir sem hægt er að stilla í Hue appinu. Einnig þarf að athuga að dimmerar sem hafa verið notaðir við ljós sem Hue pera er sett í munu ekki virka, það verður bara hægt að dimma ljósið með Hue appinu eða annarri heimastýringu, eða með Hue fjarstýringum.
Hue perur og ljós eru oft seld í settum með fjarstýringu. Fjarstýringuna er hægt að nota til að kveikja og slökkva á perunni/ljósinu og einnig er hægt að nota fjarstýringuna til að breyta litatón eða lit frá perunni ef peran styður það. Algengustu fjarstýringuna frá Hue má sjá á þessari mynd.
Í þessari uppsetningu nota ég startpakka frá Hue, í pakkanum er ein stjórnstöð og tvær snjallperur. Oftast er betra að kaupa slíka pakka fyrst, þ.e. með stjórnstöð, þeir hafa reynst ódýrari en að kaupa hlutina staka. Eins og sjá má stendur White og Warm white á pakkanum. Það þýðir að perurnar gefa frá sér “heita” birtu, það er birtu sem er aðeins gulleit, það gefur hlýlega birtu. Hue perur er einnig hægt að fá með merkingunni “White ambiance” og “White and color ambiance”. Ambiance þýðir á íslensku andrúmsloft. Í white ambiance er hægt að stilla hlýleikann á birtunni, frá köldu hvítu ljósi yfir í hlýlegt gulleitt ljós (2200 kelvin til 6400 kelvin). Með Color ambiance perunum getur maður hins vegar stillt milli allt að 16 milljóna lita, þ.e. þú getur stillt ljósið sem hvítt, rautt, gult, blátt og nánast allt þar á milli. Allar þessar perur eru yfirleitt í kringum 800 lumens (lumens er mælikvarði fyrir hver björt peran getur lýst). Perurnar eiga að endast í um 25.000 klukkutíma og eru oft tæplega 10 wött.
Svona lítur pakkinn út sem ég notaði frá þeim.
Hér má sjá að í pakkanum eru tvær snjallperur, ein stjórnstöð, spennubreytir fyrir stjórnstöð og netsnúra. Takið eftir miðanum sem er hægra megin neðan við miðju, þar sem stendur 468-, ég er búinn að hylja seinni hlutann. Þetta er númer sem hægt er að nota til að tengja brúna við Homekit, sem er heimastýringarforrit frá Apple.
Til að geta sett upp stjórnstöðina þarf að byrja á að sækja Hue appið í síma, það er til bæði fyrir iPhone/iPad og Android síma. Svona lítur það út í iPad:
Þegar þú hefur sett appið upp skaltu tengja stjórnstöðina með netsnúrunni við routerinn þinn og stinga síðan stjórnstöðinni í samband. Athugaðu að brúin þarf að vera tengd sama neti og tækið sem þú settir appið upp á. Ef brúin er tengd með snúru við routerinn og þú ert tengdur með símann/spjaldtölvuna á þráðlausa netið frá routernum ættir þú að vera á sama netið með bæði þessi tæki.
Þú skalt bíða eftir að öll þrjú ljósin ofan á stjórnstöðinni lýsi stanslaust, þ.e. engin af ljósunum blikki. Það getur tekið nokkrar mínútur. Fyrsta ljósið merkir að brúin sé tengd við rafmagn. Annað ljósið merkir að brúin nái netsambandi, þriðja ljósið merkir að brúin nái sambandi út á internetið.
Þú opnar nú appið og þá fer leit sjálfkrafa í gang, það leitar hvort það finni nýja Hue brú.
Ef allt er rétt tengt koma skilaboðin “1 new Hue Bridge found”. Þú smellir nú á Connect. Þá kemur upp mynd sem biður þig um að smella á takkann sem er ofan á brúnni. Þú ferð að brúnni og ýtir einu sinni á takkann, þetta er takki fyrir miðri brúnni, þar sem bláa ljósið lýsir umhverfis.
Ef þú ert að nota iPhone eða iPad kemur upp mynd þar sem þú ert beðinn um að leyfa aðgang að gögnum þannig að þú getir notað Siri, sem er tól frá Apple til að gefa raddskipanir. Ef þú vilt leyfa þann aðgang, til að geta notað raddskipanir, smellir þú á OK. Þá hverfur sá sprettigluggi og þú getur smellt á græna Update takkann. Það er mjög líklegt að update takkinn birtist þegar þú ert að setja brúna upp, þ.e. að brúin sem þú keyptir sé ekki með nýjasta hugbúnaðinn fyrir brúna, þar sem það tekur tíma frá því að brúin er framleidd þangað til hún er seld til þín.
Uppfærslan gæti tekið svona 2-3 mínútur.
Þegar henni er lokið kemur upp Done takki neðst á skjánum, þú smellir á hann. Nú þarftu að samþykkja skilmála neðst á síðunni með því að smella í hakið. Hægt að velja Enable til að samþykkja að senda gögn til Hue til að bæta forritið eða litlu stafina fyrir neðan “I do not want to help improve”. Forritið á að virka eins gagnvart þér, sama hvort af þessu tvennu þú velur.
Næst hvort maður vilji para Homekit og Siri. Þá velur maður Pair brigde neðst. Ég hef ekki prófað að nota Android stýrikerfið fyrir Hue, ég geri ráð fyrir að í því tilfelli sé valið að nota Google assistant eða Amazon Alexa raddstýringuna í staðinn. Þannig að ef þú ert ekki með Apple vöru þegar þú ert að setja þetta upp geri ég ráð fyrir að þú fáir ekki val um að nota Siri. Ég ætla hér að smella á Skip, sem er efst í hægra horninu.
Þá sjáum við mynd þar sem stendur: “No lights connected”.
Ég er með tvær perur í þessu byrjunarsetti þannig að ég smelli neðst “Add lights”. Athugið að það þarf að vera búið að setja perurnar í perustæði og kveikja ljósin, þ.e. þær þurfa að vera með straum á sér.
Þegar ég smelli á “Add lights” kemur upp leitarmynd, ég læt appið bara leita af þeim, þ.e. ég smelli á Search hnappinn.
Þá verður myndin meira og minna svört og það kemur texti neðst sem segir að verið sé að leita að hlutum (þ.e. Hue snjallhlutum).
Eftir töluverða stund (1-2 mínútur) koma upp skilaboð um að tvö ný ljós hafi fundist og þau ljós eru nú sýnd efst í myndinni.
Þarna er hægt að smella á línurnar fyrir hvort ljós og skíra þær eitthvað annað en “Hue white lamp” númer 1 og 2. Ég ákveð að gera það ekki og smelli bara á Next efst í hægra horninu. Þá kem ég að mynd þar sem stendur Room Setup, þ.e. að búa til herbergi.
Ég bjó til herbergi, lét það heita “Stofa”. Þetta gerði ég með því að smella á Create room neðst á skjánum og skrifa síðan inn heitið á herberginu. Perurnar tvær koma upp sjálfvaldnar fyrir þetta herbergi.
Ég smellti síðan á Save og eftir það á Next sem kemur þá upp efst í hægra horni. Þá er uppsetningunni lokið.
Að lokum er smellt á Let’s go neðst í myndinni. Þá endum við inni í Hue appinu, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar er hægt að kveikja og slökkva á perunum sem við vorum að setja upp eða auka birtu á þeim eða minnka. Neðst á skjánum eru valliðir fyrir appið, þar sem hægt er að gera ýmsar stillingar og breyta hinu og þessu. Ég ætla ekki að fara í það í þessum pistli, hann er bara um grunnuppsetninguna á brúnni. Farið verður betur í önnur atriði í síðari pistlum.
Ef kveikt er á perunum með því að færa rofann sem er hægra megin á myndinni breytist línan svona, þá er verið að kveikja á öllum ljósum í herberginu Stofa:
Ljósi liturinn táknar að kveikt sé á ljósunum. Línan sem er neðst, með hringnum í vinstra megin við miðju virkar sem dimmer, með því að draga hringinn til vinstri eða hægra stjórnar maður birtunni á perunum.
Ef maður smellir einhversstaðar á Stofa reitinn fer maður dýpra niður í einstök ljós eða perur sem eru í þessu herbergi sem nefnist Stofa. Ljósin eru þá sundurliðuð þannig að maður getur stjórnað hvort kveikt sé eða slökkt á hvoru fyrir sig eða stýrt birtustiginu á hvoru ljósi fyrir sig.
Hér sjást perunar þar sem annað ljósið er stillt með nokkuð háa birtu en hitt með lægri birtu.